Um Nesklúbbinn

Nesklúbburinn – Golfklúbbur Ness er golfklúbburinn á Seltjarnarnesi.  Nesklúbburinn býður upp á fjölbreytt íþrótta- og afþreyingarstarf og heyrir undir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.  Á svæðinu er 9 holu golfvöllur, afar fullkomið æfingasvæði og golfskáli þar sem rekin er veitingasala frá 1. maí – 30. september ár hvert og er öllum opin.

Nesklúbburinn sem lýðheilsuafl á Seltjarnarnesi

Á fyrstu árum Nesklúbbsins bar lítið á barna- og unglingastarfi. Það hefur mikið breyst á undanförnum áratugum og þá sérstaklega undanfarin ár. Algjör sprenging hefur orðið á iðkendum í barna- og unglingastarfi klúbbsins, en þeim hefur fjölgað um rúmlega 300% síðan árið 2017. Nú æfa um 100 börn og unglingar golf hjá Nesklúbbnum allt árið um kring.

Nesklúbburinn tekur þessari auknu ábyrgð fagnandi og vill gera eins vel og mögulegt er í barna- og unglingastarfi enda forvarnargildi skipulags íþróttastarfs ótvírætt. Það sem við erum einnig virkilega stolt af er að margir ungu kylfinganna sem æfa hjá Nesklúbbnum allt árið höfðu ekki endilega fundið sig í öðrum íþróttum, en eftir að hafa byrjað að æfa í Nesklúbbnum hafa margir hverjir blómstrað í golfíþróttinni. Í golfinu hjá Nesklúbbnum njóta þessir kylfingar því þess forvarnargildis sem íþróttir bjóða upp á á sínum forsendum. Golfið hefur þá sérstöðu að óháð getustigi og aldri geta allir stundað íþróttina saman þar sem eini raunverulegi mótherjinn er völlurinn sjálfur. Með áherslu á að bjóða upp á verkefni við hæfi og góða þjálfun fyrir stóran hóp barna og unglinga á ólíkum aldri og getustigi hefur Nesklúbbnum tekist að ná ofangreindri aukningu iðkenda.

Við hjá Nesklúbbnum erum stolt af því að vera mikilvægir þátttakendur í að efla lýðheilsu Seltirninga á öllum aldri. Nesklúbburinn hefur gert samkomulag um 7 ára leigusamning á nýrri og glæsilegri inniaðstöðu sem mun gjörbreyta landslaginu varðandi þjónustu Nesklúbbsins við kylfinga á öllum aldri. Nesklúbburinn ætlar sér á næstu árum að hafa enn víðtækari áhrif á heilsueflingu bæjarbúa; andlega, félagslega og líkamlega, með því að bjóða upp á fullnægjandi samkomustað fyrir kylfinga til að geta komið saman og stundað áhugamálið sitt allan ársins hring.

Nesklúbburinn er einnig stoltur af hlutverki sínu varðandi þjónustu við eldri borgara Seltjarnarness og sér klúbburinn mörg tækifæri til að geta bætt þjónustu við þá enn frekar á næstu árum í nýjum húsakynnum. Fáar íþróttir eru eins vel til þess fallnar og golfið að eldri borgarar geti tekið þátt á sínum forsendum. Mikilvægi hreyfingar og aukinna félagstengsla elsta aldurshópsins hefur verið mikið í umræðunni í þjóðfélaginu síðustu misseri og sjáum við hjá Nesklúbbnum aukna möguleika á að geta verið leiðandi á þessu sviði í heilsueflingu eldri borgara Seltjarnarness næstu árin.